Sjóbirtingsveiðar að hausti

Sjóbirtingurinn er mögnuð skepna og það er sannarlega frábær skemmtun að veiða hann á stöng, enda er hann sprettharðastur allra laxfiska. Almennt hefur verið mikill uppgangur í sjóbirtingsveiði á öllu landinu um nokkurt skeið og er það vel. Jafnframt hefur hann farið að ganga fyrr upp árnar nú í seinni tíð og stærstu birtingarnir eru jafnvel mættir í árnar í lok júní. Kraftmestu göngurnar koma þó um síðsumarið þegar nætur verða dimmar og besti veiðitíminn á sjóbirtingsslóðum í Skaftafellssýslum hefur jafnan þótt vera frá ágústlokum og út september. Stundum getur líka október veiðin verið drjúg, enda gengur mikið af geldfiski í árnar á haustin.  

Haustveiðin er mikið lotterí og allra veðra von. Það getur dottið í bongóblíðu, en samt er miklu algengara að veður séu rysjótt – hvasst, kalt og blautt! En einmitt þá gerast oft ævintýrin og þá er líka mikilvægt að vera með réttu græjurnar. Enginn skyldi fara í haustveiði á sjóbirting bara með léttar græjur – fjarkar og fimmur og flotlínur eru fínar til síns brúks, en þegar gengur á með hagléljum og 13-20 m/s og vatnið litað fer sjarminn aðeins af þeim. Við slík skilyrði er gott að vera með stangir fyrir línur 8-11 – kraftmiklar einhendur og svo „switch“ stangir og tvíhendur. Þá þarf líka að veiða djúpt með sökklínum eða sökkendalínum og þyngdum flugum og kasta þvert eða jafnvel aðeins upp fyrir sig og menda vel til að fá hægara rennsli. Þeim mun hægar sem flugan fer að fiskinum þeim mun líklegra er að hann fari í hana þegar vatnshitinn er aðeins örfáar gráður. Þá er  mikilvægt að vera með sterkan taum, ekki veikari en 15 pund. Hefðbundnar flugur í sjóbirtingsveiði eru Black Ghost, Dentist, Dýrbítur, Flæðarmús, Nobbler og Spencer Bay Special svo nefndar séu nokkrar þekktar straumflugur bæði í hefðbundnum útfærslum og þyngdar eða „skull“. Svo koma tímar þegar hann vill bara „pöddur“ eða jafnvel þurrflugu – það er um að gera að hugsa útfyrir boxið og sýna honum eitthvað nýtt. 

Að lokum þá er mikilvægt að byrja alltaf að veiða svæðið næst bakkanum sem þú veiðir frá. Þegar árnar eru vatnsmiklar þá hörfar birtingurinn frá mestu straumólgunum og leitar vars nær landi og því er mikilvægt að ana ekki beint út, heldur byrja á því að veiða svæðið næst þér. Þegar það er búið er tilvalið að bretta upp vaðbrókina og kasta á djúpu kvörnina við landið hinu megin. Stundum er sá stóri einmitt þar lagsi – Hóseanna! 

Fleiri áhugaverð tips

2020-06-22T08:57:49+00:00

Deildu einhverju með okkur...

Go to Top